• Umhverfisvernd

 • Heimildamyndir

  "Earth provides enough for every man's need but not for every man's greed"

  - Mahatma Gandhi

  Núna er tíminn!

  Börnin okkar eru síðasta kynslóðin sem hefur tækifæri til að koma í veg fyrir yfirvofandi, hnattræn áhrif náttúruhamfara eins og fátækt, fæðuskort, vatnsskort, flótta og flóð vegna gróðurhúsaáhrifanna.

  Viðvörun frá Sameinuðu þjóðunum

  Framleiðsla dýraafurða valda meiri gróðurhúsaáhrifum en allur samgönguflotinn til samans. Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt þegna sína til að draga úr neyslu dýraafurða. Sjá skýrsluna þeirra hér.

  Dýrafurðir sóa náttúruauðlindum

  Til að rækta eina hitaeiningu af kjöti þarf mun meira land, vatn og jarðefnaeldsneyti heldur en til þess að rækta eina hitaeiningu af plöntufæði. www.cowspiracy.com

  Lausaganga búfjár

  Herdís Þorvaldsdóttir ræðir við sérfræðinga um lausagöngu búfjár. Samkvæmt myndinni hefur lausagangan breytt landinu okkar í stærstu eyðimörk Evrópu.

   

  Ofveiði

  Fiskurinn er að klárast og afleiðingarnar fyrir jörðina verða ekki góðar.

 • Vegan fyrir umhverfið

  Kjötneysla er komin að þolmörkum jarðarinnar

  Árið 2010 gáfu Sameinuðu þjóðirnar út aðra skýrslu þar sem útskýrt var að vestrænar matarvenjur væru ekki sjálfbærar. Þau lýstu áhyggjum yfir að árið 2050 yrði mannfjöldi og kjötneysla hans komin að þolmörkum og að við munum neyðast til að minnka kjötneyslu okkar umtalsvert ef við ætlum að fæða alla jarðarbúa.
   

  Hvernig grænkerar minnka kolefnissporið

   

  Alþjóðaheilbrigðisstofnun hefur hvatt ríki heims til að minnka neyslu dýraafurða verulega vegna heilsufars- og umhverfisþátta.

  Rannsóknir hafa sýnt að búfénaður í landbúnaði, sem samanstendur af nautgriparækt, svínarækt, sauðfjárrækt og kjúklingarækt, ber ábyrgð á 18 prósentum af allri losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum eða meira en samanlagðri losun allra vélknúinna ökutækja á jörðinni, sem nemur um 13 prósentum af heildarlosun, eins og kemur fram í hinni sláandi heimildarmynd Cowspiracy: The Sustainability Secret. Tölfræðin byggir á gögnum frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna. Ef hliðarafurðir landbúnaðarins eru teknar með í reikninginn fer hlutfall heildarlosunar upp í 51 prósent. Talið er að losun landbúnaðarins á gróðurhúsalofttegundum muni vaxa að óbreyttu um 80 prósent fyrir árið 2050. Þetta er óhugnalegt þegar haft er í huga hversu miklum tíma og peningum mannfólkið ver í fjárfestingu og þróun á nýrri umhverfisvænni tækni í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

   

  En eins og staðan er núna þá mengar grænkeri á bíl minna en kjötæta á hjóli.

   

  Með aukinni vitund um þetta stærsta umhverfisvandamál samtímans höfum við séð samfélag grænkera (grænmetisætur og veganistar) aukast svo um munar og búumst við að okkar hópur muni fara stigvaxandi með aukinni vitund og fræðslu.

   

  Það hefur ekki verið formlega kannað hversu mikið grænkera lífstíll hefur aukist á Íslandi en ef rýnt eru í tölur frá BNA og Svíþjóð má sjá að í BNA hafa grænkerar aukist um 600% á síðustu 3 árum eða úr 1% landsmanna í 6% sem gera um 19 milljón manns í BNA í dag ásamt því að töluvert fleiri hafa minnkað neyslu dýraafurða til muna. Svíþjóð er leiðandi í veganisma á Norðurlöndum og þar eru 8-10% landsmanna grænkerar (tölur sveiflast lítt milli kannana).

   

  Í kjölfar Parísarsáttmálans sem undirritaður var í desember 2015 þegar ríki heims skuldbundu sig til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og setja fram aðgerðir og mæla árangur þeirra hafa mörg ríki tekið skref til umhverfisvænni neysluhátta. Þýskaland og Portúgal hafa m.a bannað neyslu kjöts á opinberum viðburðum á vegum ríkisins, Belgía hefur tekið rautt kjöt úr fæðuhringnum og sett í flokk með ruslfæði og svo gerði Kanada líka árið 2018 nýjan fæðuhring uppfærðan samkvæmt nýjustu rannsóknum vegna þrýstings frá sérfræðingum innan heilbrigðisstéttarinnar. Nýr fæðuhringur Kanada mælir sérstaklega með aukinni neyslu grænmetis, heilkorna og plöntupróteins og telst þetta með stærri skrefum sem vestrænt ríki hefur tekið í lýðheilsumálum.

  Landlæknisembætti Íslands varar við því á heimasíðu sinni að miðað við framleiðslutölur frá hagstofunni þá neyta Íslendingar rauðs kjöts í mun meiri mæli en ráðleggingar segja til um og hvetur til aukinnar neyslu plöntufæðis en þrátt fyrir það er fæðuhringurinn óbreyttur og Ísland eftirbátur flestra Evrópuþjóða í þessum málum og þar viljum við sjá úrbætur.

   

  Ísland getur verið sjálfbært í grænmetisrækt

   

  Hrein orka, hreint vatn og lífræn ræktun gerir íslenskt grænmeti að því besta sem völ er á og hafa nú þegar náðst samningar um útflutning á ma. agúrku til Danmerkur á sama tíma og við erum að flytja inn 80% af okkar grænmeti.

   

  Það er einlæg ósk okkar í samtökunum að ný ríkisstjórn hvetji til nýsköpunar í landbúnaði og styrki bændur til frekari grænmetis- , ávaxta- og kornræktunar (hafra og hamps). Ef grænmetisbændur fengju til að mynda kílówattið af rafmagni á sama verði og álverin fá þá væru þeir í mun betri málum og gætu ræktað allan ársins hring en eins og er þá loka flestir yfir svartasta skammdegið því það er of dýrt að nota einungis lampa í gróðurhúsum þegar ljós er af skornum skammti. Það er krafa neytenda á kaupmenn að hafa íslenskt grænmeti á boðstólnum allan ársins hring en þeir geta illa verið við þeirri kröfu og flytja inn mestallt grænmeti yfir vetrartímann en á sama tíma er offramboð og förgun á dýraafurðum.

   

  Nýtni megavatts af rafmagni til grænmetisræktunar er 5-10 störf á móti 0,5 starf í álframleiðslu svo reikningsdæmið er ekki flókið, fyrir utan að grænmetisrækt mengar ekki.

   

  Fæðuöryggi

   

  Fæðuöryggi er skilgreint sem réttur allra til að hafa aðgang að nægum, öruggum og næringarríkum matvælum og þeim grundvallarrétti allra að þurfa ekki að sæta hungri.

   

  Ræktun grænmetis er ekki einungis betra fyrir umhverfið heldur er það nauðsynlegt ef tryggja á fæðuöryggi okkar. Veikleikar Íslands hvað fæðuöryggi varðar er að hér er 80% af öllu grænmeti innflutt, við erum á afskekktri eyju berskjölduð fyrir náttúruhamförum, styrjöldum og kreppum sem gætu hamlað innflutning og ætti þetta mál því að vera í forgangi.

  Nú þegar er framleitt nægt magn og umfram það af dýraafurðum eins og kjöti, fiski og mjólkurafurðum og löngu orðið tímabært að efla grænmetisiðnaðinn en einungis eru 100 ár síðan við liðum skort sem skapaði heilsufarsvandamál til langs tíma.

   

  Miðað við hversu lengi hefur verið vitað að við uppfyllum ekki þessar kröfur þá er ótrúlegt að ekki sé búið að bæta úr því og að nýjir búvörusamningar sem samþykktir voru á þingi í fyrra geri ekki ráð fyrir að tryggja fæðuöryggi okkar.

   

  Heimildir:

   

  Efling græmetisræktar á Íslandi http://www.matis.is/media/matis/utgafa/16-12-Lokaskyrsla-Efling-graenmetisraektar-a-Islandi.pdf

   

  Gylfi Árnason http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1369545/

   

  Fjölbreytt fæða til frambúðar- Hörður Ágústsson https://skemman.is/handle/1946/3189

   

  Cowspiracy The sustainability secret http://www.cowspiracy.com/

   

  Valgerður og Benjamín í SGÍ kynntu þetta erindi fyrir ríkisstjórnarkosningar 2017, Vinstri Græn og Píratar tóku á móti þeim til að ræða þessi mál. Aðrir flokkar fundu ekki tíma.

   

   

  Gróðurhúsaáhrifin

  Jörðin okkar er komin á eindaga. Sameinuðu þjóðirnar tilkynntu í nóvember 2014 að ef við hættum ekki að spúa gróðurhúsaalofttegundum fyrir næstu aldamót, þá meigum við eiga von á harkalegum, óafturkræfanlegum umhverfisspjöllum. Nú þegar eru jöklar byrjaðir að bráðna sem veldur auknum eldgosum og breytingum á sjávarmáli. Þetta þýðir í rauninni að börnin okkar eru síðasta kynslóðin sem hefur tækifæri til að koma í veg fyrir yfirvofandi, hnattræn áhrif náttúruhamfara eins og fátækt, fæðuskort, vatnsskort, flótta og flóð.

  Dýraafurðir valda meiri gróðurhúsaáhrifum en allur samgönguflotinn samanlagður

  Árið 2006 gáfu Sameinuðu þjóðirnar út skýrslu sem segir að framleiðsla dýraafurða mengar andrúmsloftið meira en allur samgönguflotinn til samans. Því má segja að það hafi meiri jákvæð áhrif á loftslagið að hætta að borða kjöt heldur en að leggja fjölskyldubílnum. Í heildina er framleiðsla dýraafurða ábyrg fyrir um 18% af útblástri gróðurhúsalofttegunda. Framleiðsla dýraafurða á einnig þátt í landeyðingu, ofbeit, orkusóun, eyðingu skóga og hnignun lífræðilegs fjölbreytileika. Samkvæmt heimildarmyndinni Fjallkonan hrópar á vægð er Ísland ekki undanskilið. Þvert á móti á sauðfjárrækt þátt í að breyta Íslandi í stærstu manngerðu eyðimörk Evrópu.

  Matvælasóun og auðlindasóun

  Framleiðsla dýraafurða stuðlar að sóun verðmætra náttúruauðlinda. Til að rækta eina hitaeiningu af kjöti þarf mun meira land, vatn og jarðefnaeldsneyti heldur en til þess að rækta eina hitaeiningu af plöntufæði. Sem dæmi þarf um sextán kíló af dýrafóðri (plöntum) til að framleiða eitt kíló af nautakjöti. Meirihluti ræktaðs lands á jörðinni er notað í ræktun dýrafóðurs í stað matar til manneldis. Sumar þjóðir ættu frekar að vera að rækta korn, baunir, grænmeti eða ávexti fyrir landa sína. Við erum í bókstaflegri merkingu að fleygja fæðunni fyrir svínin í stað þess að fæða svanga munna. Það má hafa í huga að hluti af dýrafóðri á Íslandi er innflutt. Þannig höfum við Íslendingar bein áhrif á það hvað ræktað er annars staðar á jörðinni. Verksmiðjubúin á Íslandi valda einnig umhverfisvandamálum í sínu nánasta umhverfi. Svínum eru gefin breiðvirk sýklalyf sem eiga þátt í að skapa svokallaðar ofurbakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Nú þegar hafa orðið dauðsföll af völdum svínabaktería í Danmörku.

  Fiskveiðar

  Þrátt fyrir það yfirlýsta markmið íslenskra stjórnvalda að vera leiðandi í málefnum hafsins og fyrirmynd annarra þjóða hvað varðar fiskveiðar, þá á Ísland ekki aðild að fjölmörgum alþjóðasamningum um mengun sjávar frá skipum. Ísland framfylgir heldur ekki öllum þeim samningum sem þegar hafa verið staðfestir. Ríkisendurskoðun hefur sent Alþingi skýrslu um málið og hvetur til úrbóta. Sjá Fréttablaðið, 4. desember 2014. Vissir þú að um 43% afla íslendinga kemur frá botnvörpuveiðum sem skaða sjávarbotninn og heimkynni fiska?