Return to site

Umsögn vegna tillögu Miðflokks um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu

Tillaga þingflokks Miðflokks um matvælaframleiðslu á Íslandi hefur eftir yfirlestur það helsta markmið að viðhalda hefðbundinni landbúnaðarframleiðslu með sömu áherslum og hafa verið síðustu tugi ára.

Umsögn Samtaka grænkera á Íslandi vegna máls 142 á 152. þingi  um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

Tillaga þingflokks Miðflokks um matvælaframleiðslu á Íslandi hefur eftir yfirlestur það helsta markmið að viðhalda hefðbundinni landbúnaðarframleiðslu með sömu áherslum og hafa verið síðustu tugi ára. Sú framþróun sem lögð er til í nýsköpun, eins og kornrækt og þörungarækt, hefur það að markmiði að fæða húsdýr í stað þess að fæða fólk. Þessi tillaga gerir ekki tillit til að það þarf að draga verulega úr losun gróðurhúsaloftegunda þar sem hún hunsar þá staðreynd að dýr í landbúnaði menga meira en samgöngur og flutningur matvæla. Tillagan hefur það einnig að markmiði að minnka eftirlit með framleiðslunni og um leið eftirlit með velferð dýra. 

Þessi tillaga er í stórum dráttum ekki alslæm, það eru í henni hugmyndir sem hægt væri að styðja ef markmið með aðgerðum sem lagðar eru til væru með öðrum áherslum.

Hér koma athugasemdir okkar við eftirfarandi liði: 9,10,11,14,15,16,18 og 19:

Liður 9. Eftirlitskerfi með matvælaframleiðslu verði einfaldað og kostnaði við eftirlitið létt af greininni.

Vissulega þarf að einfalda eftirlitskerfi, en markmiðið þarf að vera að auka afkastagetu og eftirlit með matvælaframleiðslu sérstaklega með tilliti til velferðar dýra, góðrar nýtingar matvæla og sporna við brottkasti. Fjölmörg nýleg dæmi sýna okkur að eftirliti er verulega ábótavant og það þarf að styrkja eftirlitsstofnanir og manna þær betur þegar kemur að landbúnaðarframleiðslu, fiskeldi og fiskveiðum. Til þess þarf að auka fjármagn til eftirlitsstofnana en ekki minnka. 

Liðir 10-15. 

Samtök grænkera hafa frá stofnun haft það að markmiði að þrýsta á yfirvöld að styðja við þróun matvæla úr plönturíkinu og nýta til þess innlenda orkugjafa. Við erum því sammála mörgu í þessari tillögu en áherslan þarf að vera sú að framleiða matvöru fyrir fólk í stað þeirrar áherslu að framleiða dýrafóður. Í dag er um 80% grænmetis á matvörumarkaði og yfir 90% kornvara innflutt. Það er einlæg ósk okkar í samtökunum að aðgerðir hvetji til nýsköpunar og endurmenntunar með sjálfbær markmið í huga í landbúnaði og styrki bændur til frekari grænmetis- , ávaxta-, bauna- og kornræktunar (t.d. hafra og hamps). Ef grænmetisbændur fengju til að mynda kílówattið af rafmagni á sama verði og álverin fá þá væru þeir í mun betri málum og gætu ræktað allan ársins hring en eins og er þá loka flestir yfir svartasta skammdegið vegna rafmagnskostnaðar. 

Liður 16. Ráðist verði í rannsóknir á notkun innlendra náttúrulegra hráefna, svo sem þörunga og kalks, til áburðarframleiðslu.

Við styðjum við þessa tillögu en viljum einnig benda á mikilvægi þess að styðja við þörungarækt til að framleiða fæðubótarefni/matvæli fyrir fólk. Smáþörungar eru mikilvirkir í að framleiða prótein og lífræna olíu sem er rík af Omega 3 fitusýrum. Kosturinn við að nota smáþörunga við framleiðslu á matvöru/fæðubótarefni er einkum sú staðreynd að ekki þarf að taka undir það mikið og dýrmætt ræktarland í landbúnaði, né ganga á korn eða ræktun annarra nytjajurta til manneldis. Þá er kolefnisspor smáþörungaframleiðslunnar til framleiðslu á Omega 3 sagt mun lægra en við framleiðslu á lýsi úr fiski.

18. Stutt verði við hrossarækt og hún efld til að nýta þau tækifæri sem þar liggja, m.a. til aukins útflutnings á lifandi hrossum.

Lausaganga hrossa hefur neikvæð áhrif á náttúru Íslands og tillaga þessi stangast á við stefnu stjórnvalda þegar kemur að aðgerðum til að draga úr lausagöngu búfjár, endurheimta votlendi og rækta skóg. Nú þegar er fjöldi hrossa á Íslandi langt umfram eftirspurn eftir reiðhestum og þess vegna er gripið til þess ráðs að nýta þau á máta sem stangast á við lög um velferð dýra. Það er ekki lagt til hér beinum orðum en það liggur milli hluta að Miðflokkurinn styðji blóðmerahald. Við leggjumst gegn þessari tillögu og teljum mikilvægt að brýna að blóðmerahald brýtur í eðli sínu lög um velferð dýra og þarf að stöðva sem fyrst.

Umsögn SGÍ um blóðmerahald má finna hér!

19. Framtíð loðdýraræktar verði tryggð, t.d. með útflutningsábyrgðum, fóðurstyrkjum og sérstökum framkvæmdalánum.

Ræktun loðdýra er tímaskekkja, líkt og flestir stærstu fataframleiðendur heimsins hafa áttað sig á sem eru einn af öðrum að sniðganga loðfeldi og nýta þess í stað gerviloð úr endurunnu efni. Ef það á að veita lodýrabændum framkvæmdalán þá ætti það að vera  til þess að aðstoða loðdýrabændur við að hætta alfarið starfseminni og snúa sér að öðru. Minkar búa við hræðileg lífsskilyrði, fá enga útiveru eða félagslega örvun og eru látnir dúsa og þjást í litlum vírnetsbúrum. Þeim er svo slátrað við 6 mánaða aldur á þann hátt að þeim er troðið í lokaðan kassa og útblástur dráttarvélar tengdur við þar til þeir deyja af gaseitrun. Við fordæmum þessa tillögu með öllu og bendum enn og aftur á að þessi iðnaður brýtur lög um velferð dýra og er okkur satt að segja til skammar í siðferðilegu tilliti. 

Umsögn SGÍ um styrki til loðdýrabænda má finna hér!

Samantekt

Margar tillögur hér eru góðar þegar kemur að nýtingu endurnýjanlegrar orku, sjálfbærni og aukinnar ræktunar en það markmið að gera það til þess að framleiða fleiri dýr til manneldis er tímaskekkja. Að framleiða matvæli úr plönturíkinu til manneldis er mikilvægur liður í því að tryggja hér fæðuöryggi, taka á loftslagsvandanum og stuðla að bættri heilsu landsmanna. 

Nánar má kynna sér tillögur SGÍ um aukna matvælaframleiðslu hér!

Valgerður Árnadóttir formaður 

f. h.  Samtaka grænkera á Íslandi