Return to site

Umsögn vegna styrkja úr ríkissjóði til loðdýrabænda

Samtök grænkera á Íslandi fordæma tillögu meirihluta fjárlaganefndar sem Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna talar hér fyrir, um að veita 160 milljónir til stuðnings við minkarækt hér á landi.

Samtök grænkera á Íslandi fordæma tillögu meirihluta fjárlaganefndar sem Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna talar hér fyrir, um að veita 160 milljónir til stuðnings við minkarækt hér á landi. Tillagan er að kanna hvort minkar gagnist til að farga lífrænum úrgangi. Í dag er kosið um 80 milljónir til þessa. Við vitum nú þegar að minkar fóðrast mest megnis á lífrænum úrgangi. Það eitt og sér getur ekki verið ástæða til þess að styðja við áframhaldandi minkarækt. Vandkvæði hennar eru fleiri og alvarlegri.

Ræktun loðdýra er tímaskekkja, líkt og flestir stærstu fataframleiðendur heimsins hafa áttað sig á. Það er einfaldlega ekki réttlætanlegt að eyða þessum upphæðum í iðnaðinn, án þess að það sé til þess að aðstoða loðdýrabændur við að hætta alfarið starfseminni og snúa sér að öðru. Minkar búa við hræðileg lífskilyrði, fá enga útiveru eða félagslega örvun og eru látnir dúsa og þjást í litlum vírnetsbúrum. Þeim er svo slátrað við 6 mánaða aldur á þann hátt að þeim er troðið í lokaðan kassa og útblástur dráttarvélar tengdur við þar til þeir deyja af gaseitrun. Það getur ekki talist umhverfisvænt.

Að auki höfum við séð það í Covid faraldrinum hve skaðleg áhrif starfsemin getur haft á viðspyrnu okkar. Talið er að bóluefni munu ekki skila árangri gegn stökkbreyttu veirunni sem fundist hefur í þeim sem smitast hafa af minkum í Danmörku og víðar og þess vegna hefur þeim verið fargað í milljónavís.

Bjarkey tekur fram í ræðu sinni að „ef við erum með dýr sem við getum nýtt þá eigum við að gera það“. Það geta ekki verið raunhæf rök fyrir því að halda þessari starfsemi gangandi. Eru dýr einungis til á þessari jörð svo að fólk geti nýtt þau? Er það afstaða Vinstri grænna og ríkisstjórnarinnar til dýra? Að nýting og fjárhagsleg arðbærni vegi þyngra en dýravernd og velferð? (minkarækt hefur reyndar ekki skilað hagnaði í fleiri ár).

Bjarkey tekur einnig fram að framleiðsla á loðfeldum sé umhverfisvænni en framleiðsla á gervi-loðfeldum máli sínu til stuðnings. Hún vísar í gervi-loðfeldi úr plasti máli sínu til stuðnings en skautar viljandi framhjá þeirri staðreynd að margir framleiðendur nota endurunnið plast og nýta þar með plastið sem annars hefði endað í urðun. Auk þess skautar hún framhjá þeirri staðreynd að mikil nýsköpun hefur orðið á sviðinu og nú er gervileður framleitt úr ýmsum tegundum sem finnast í jurtaríkinu.

Við fordæmum þessa tillögu með öllu og bendum enn og aftur á, ef minkabændum vantar aðstoð vegna tapreksturs þá á að veita þeim aðstoð til að hætta að rækta minka og byggja upp annan rekstur. Þá helst rekstur sem er umhverfisvænn og skaðar ekki dýr.

Hér má sjá ræðu Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttir og andsvar Andrésar Inga Jónssonar:

 

broken image