Return to site

Við viljum auknar áherslur á grænmetis- og plönturækt á Íslandi

Pistill þessi hét upphaflega:

"Hvernig grænmetisætur minnka kolefnissporið!"

Benjamín Sigurgeirsson og Valgerður Árnadóttir fóru á fund ríkisstjórnarflokkanna fyrir kosningar 2017 með þetta erindi. Rúmum tveim árum seinna hefur lítið verið gert í þeim málaflokki að auka ræktun á plöntum á Íslandi og nú á fimmtudag 23 janúar verður málþing haldið á Hallveigarstöðum með fulltrúum þings og grænmetisbænda til að hefja samtalið af alvöru. Opið öllum áhugasömum, sjá viðburð hér: Grænmetisrækt, sjálfbærni og nýsköpun

Alþjóðaheilbrigðisstofnun hefur hvatt ríki heims til að minnka neyslu dýraafurða verulega vegna heilsufars- og umhverfisþátta.

Rannsóknir hafa sýnt að búfénaður í landbúnaði, sem samanstendur af nautgriparækt, svínarækt, sauðfjárrækt og kjúklingarækt, ber ábyrgð á 18 prósentum af allri losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum eða meira en samanlagðri losun allra vélknúinna ökutækja á jörðinni, sem nemur um 13 prósentum af heildarlosun, eins og kemur fram í hinni sláandi heimildarmynd Cowspiracy: The Sustainability Secret. Tölfræðin byggir á gögnum frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna. Ef hliðarafurðir landbúnaðarins eru teknar með í reikninginn fer hlutfall heildarlosunar upp í 51 prósent. Talið er að losun landbúnaðarins á gróðurhúsalofttegundum muni vaxa að óbreyttu um 80 prósent fyrir árið 2050. Þetta er óhugnalegt þegar haft er í huga hversu miklum tíma og peningum mannfólkið ver í fjárfestingu og þróun á nýrri umhverfisvænni tækni í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

En eins og staðan er núna þá mengar grænmetisæta á bíl minna en kjötæta á hjóli.

Með aukinni vitund um þetta stærsta umhverfisvandamál samtímans höfum við séð samfélag grænkera (grænmetisætur og veganistar) aukast svo um munar og búumst við að okkar hópur muni fara stigvaxandi með aukinni vitund og fræðslu.

Það hefur ekki verið formlega kannað hversu mikið grænkera lífstíll hefur aukist á Íslandi en ef rýnt eru í tölur frá BNA og Svíþjóð má sjá að í BNA hafa grænkerar aukist um 600% á síðustu 3 árum eða úr 1% landsmanna í 6% sem gera um 19 milljón manns í BNA í dag ásamt því að töluvert fleiri hafa minnkað neyslu dýraafurða til muna. Svíþjóð er leiðandi í veganisma á Norðurlöndum og þar eru 8-10% landsmanna grænkerar (tölur sveiflast lítt milli kannana).

Í kjölfar Parísarsáttmálans sem undirritaður var í desember 2015 þegar ríki heims skuldbundu sig til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og setja fram aðgerðir og mæla árangur þeirra hafa mörg ríki tekið skref til umhverfisvænni neysluhátta. Þýskaland og Portúgal hafa m.a bannað neyslu kjöts á opinberum viðburðum á vegum ríkisins, Belgía hefur tekið rautt kjöt úr fæðuhringnum og sett í flokk með ruslfæði og Kanada mun á nýju ári 2018 gefa út nýjan fæðuhring, uppfærðan samkvæmt nýjustu rannsóknum vegna þrýstings frá sérfræðingum innan heilbrigðisstéttarinnar. Mun nýr fæðuhringur Kanada sérstaklega mæla með aukinni neyslu grænmetis, heilkorna og plöntupróteins. Talið er að mjólkurvörur og rautt kjöt verði ekki innan ramma hringsins frekar en hvítur sykur og sódíum og telst þetta með stærri skrefum sem vestrænt ríki hefur tekið í lýðheilsumálum.

Landlæknisembætti Íslands varar við því á heimasíðu sinni að miðað við framleiðslutölur frá hagstofunni þá neyta Íslendingar rauðs kjöts í mun meiri mæli en ráðleggingar segja til um og hvetur til aukinnar neyslu plöntufæðis en þrátt fyrir það er fæðuhringurinn óbreyttur og Ísland eftirbátur flestra Evrópuþjóða í þessum málum og þar viljum við sjá úrbætur.

Ísland getur verið sjálfbært í grænmetisrækt

Hrein orka, hreint vatn og lífræn ræktun gerir íslenskt grænmeti að því besta sem völ er á og hafa nú þegar náðst samningar um útflutning á ma. agúrku til Danmerkur á sama tíma og við erum að flytja inn 80% af okkar grænmeti.

Það er einlæg ósk okkar í samtökunum að ný ríkisstjórn hvetji til nýsköpunar í landbúnaði og styrki bændur til frekari grænmetis- , ávaxta- og kornræktunar (hafra og hamps). Ef grænmetisbændur fengju til að mynda kílówattið af rafmagni á sama verði og álverin fá þá væru þeir í mun betri málum og gætu ræktað allan ársins hring en eins og er þá loka flestir yfir svartasta skammdegið því það er of dýrt að nota einungis lampa í gróðurhúsum þegar ljós er af skornum skammti. Það er krafa neytenda á kaupmenn að hafa íslenskt grænmeti á boðstólnum allan ársins hring en þeir geta illa verið við þeirri kröfu og flytja inn mestallt grænmeti yfir vetrartímann en á sama tíma er offramboð og förgun á dýraafurðum.

Nýtni megavatts af rafmagni til grænmetisræktunar er 5-10 störf á móti 0,5 starf í álframleiðslu svo reikningsdæmið er ekki flókið, fyrir utan að grænmetisrækt mengar ekki.

Fæðuöryggi

Fæðuöryggi er skilgreint sem réttur allra til að hafa aðgang að nægum, öruggum og næringarríkum matvælum og þeim grundvallarrétti allra að þurfa ekki að sæta hungri.

Ræktun grænmetis er ekki einungis betra fyrir umhverfið heldur er það nauðsynlegt ef tryggja á fæðuöryggi okkar. Veikleikar Íslands hvað fæðuöryggi varðar er að hér er 80% af öllu grænmeti innflutt, við erum á afskekktri eyju berskjölduð fyrir náttúruhamförum, styrjöldum og kreppum sem gætu hamlað innflutning og ætti þetta mál því að vera í forgangi.

Nú þegar er framleitt nægt magn og umfram það af dýraafurðum eins og kjöti, fiski og mjólkurafurðum og löngu orðið tímabært að efla grænmetisiðnaðinn en einungis eru 100 ár síðan við liðum skort sem skapaði heilsufarsvandamál til langs tíma.

Miðað við hversu lengi hefur verið vitað að við uppfyllum ekki þessar kröfur þá er ótrúlegt að ekki sé búið að bæta úr því og að nýjir búvörusamningar sem samþykktir voru á þingi í fyrra geri ekki ráð fyrir að tryggja fæðuöryggi okkar.

Heimildir:

Efling græmetisræktar á Íslandi http://www.matis.is/media/matis/utgafa/16-12-Lokaskyrsla-Efling-graenmetisraektar-a-Islandi.pdf

Gylfi Árnason http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1369545/

Fjölbreytt fæða til frambúðar- Hörður Ágústsson https://skemman.is/handle/1946/3189

Cowspiracy The sustainability secret http://www.cowspiracy.com/facts