Return to site

Jólagjöfin frá Samtökum grænkera

Við höfum ákveðið að gefa öllum landsmönnum jólagjöf!

Hún höfðar sérstaklega vel til þeirra sem finnst gaman að lita.

Kveðja frá Vigdísi Fríðu, varaformanni samtakanna:

Gleðileg jól og farsælt komandi ár!

Árið hefur sannarlega verið viðburðaríkt hjá félaginu þrátt fyrir að Covid faraldurinn hafi sett strik í reikninginn hjá okkur eins og öllum öðrum. Við höfum þurft að leita nýrra leiða til þess að sinna starfinu, færa fundarhöld yfir á netheima og halda viðburði með breyttu sniði. Á heildina litið gekk þó vel og mikill lærdómur hefur hlotist af núverandi ástandi.

Við viljum enda árið með pompi og prakt og gefum því öllum landsmönnum jólagjöf. Hún kemur á rafrænu formi en hægt er að prenta hana út heimafyrir, á vinnustöðum eða á bókasöfnum - svo dæmi séu nefnd!

Jólagjöfin er...

Litabók með jólaverunum okkar í aðalhlutverki!

broken image

Okkur þótti tími til kominn að gefa út litabók með jólaverunum okkar. Litabókina gefum við öllum sem hana vilja og er hún aðgengileg hér á vefnum. Jólaverurnar okkar hafa vakið talsverða athygli en þær eru vænar, grænar og hverra manna hugljúfust. Þær læðast inn í fjárhúsin og frelsa þar fé, hvísla að hænunum og klappa jólakettinum.

Við vonum að þið notið góðs af gjöfinni. Þau sem vilja jólaverurnar í lit á jólakortin sín er bent á að slíkur varningur fæst í Vegan búðinni í takmörkuðu upplagi.

Veganúar í vændum

Nú líður að nýju ári og brátt komið að árverkniátaki samtakanna, Veganúar.

Markmið veganúar er að vekja fólk til umhugsunar um áhrif neyslu dýraafurða og kynna kosti vegan fæðis fyrir heilsu, umhverfi og dýravernd.

Ljóst er að Veganúar verður haldinn með breyttu sniði, í takt við tímann og gildandi sóttvarnarreglur. Verða viðburðirnir á þessu ári allir í gegnum netheima. Við í samtökunum höfum þó einsett okkur að hafa dagskrá Veganúar 2021 ekki síðri en undanfarin ár. Það hefur reynst erfiðara að afla styrkja fyrir komandi viðburði og teljum við líklegt að rekja megi það til Covid og fjárhagsstöðu fyrirtækja. Það hefur aldrei verið mikilvægara fyrir samtökin að vera með fjölda félaga og virkra sjálfboðaliða sem eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum. Aldrei hafa fleiri sjálfboðaliðar tekið þátt í skipulagningu Veganúar og erum við afar þakklát öllum þeim sem leggja hönd á plóg. Samtökin eru rekin alfarið í sjálfboðaliðastarfi og skiptir hver króna máli í starfinu. Stuðningur félaga gerir okkur kleift að halda starfinu gangandi. Félagsgjaldinu er varið í útlagðan kostnað við verkefni samtakanna.

Ert þú ekki pottþétt skráð/ur í samtökin? Skráðu þig hér!