Return to site

Grænkerum fjölgar í takt við neyslubreytingar

Bændablaðið tók viðtal við Valgerði Árnadóttur varaformann SGÍ og birti hluta úr viðtalinu, hér má finna allt viðtalið:

Hvenær voru samtök Grænkera stofnuð og hver stóð að því?
Samtök grænmetisæta á Íslandi voru stofnuð árið 2013 af nokkrum grænmetisætum og
grænkerum, formaður var þá Sigvaldi Ástríðarsson (Valli Dordingull) og með honum sátu
m.a. í stjórn þær Sæunn I. Marínósdóttir (sem seinna stofnaði Vegan mat og Jömm) og
Helga María Ragnarsdóttir (veganistur.is) ásamt þeim Sigurbaldri. P. Frímannsyni og Elísu
Guðjónsd. Tilgangur samtakanna hefur frá byrjun verið að stuðla að jákvæðri ímynd og
fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum
nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða. Árið 2018 sameinuðust svo Vegan samtökin og
Samtök grænmetisæta undir nafninu Samtök grænkera og í stjórn eru nú ma. Benjamín
Sigurgeirsson formaður og ég sem er varaformaður ásamt 8 öðrum meðstjórnendum.

Hvernig er starfið í dag, eru meðlimir og hvert er hlutverk félagsins?
Það má segja að upphaflegur tilgangur samtakanna hafi takist vel til, mikið úrval er af vegan
matvöru í verslunum og á veitingastöðum og grænkerum fjölgar mjög hratt enda aukin
vitund í samfélaginu um áhrif dýralandbúnaðar á umhverfi, heilsu og dýrin. Verkefni okkar í
dag snúast mikið um að halda viðburði eins og Veganúar, vegan festival, sýna
heimildamyndir og halda málþing. En einnig erum við virk í að skrifa greinar, senda út álit og
áskoranir eins og td. að hvetja skóla og stofnanir til að bjóða upp á grænkerafæði, að
Landlæknir hafi viðundandi upplýsingar um grænkerafæði á síðu sinni og í fræðsluefni og eitt
af okkar aðal-áherslumálum er að Ísland rækti meira af grænmeti, ávöxtum og kornmeti hér
heima en eins og flestir vita er um 90% af þessum vörum innfluttar í dag. Við teljum að með
aukinni áherslu stjórnvalda og menntastofnanna, lækkun raforku til grænmetisbænda og
með aukinni áherslu með menntun og endurmenntun sé hægt að gera Ísland sjálfbært í
grænmetisframleiðslu. Ef Holland sem er hvorki með heitt vatn né endurnýjanlega orku
getur ræktað allt í gróðurhúsum þá getum við það. Við héldum málþing undir yfirskriftinni
“grænmetisrækt, sjálfbærni og nýsköpun á Íslandi” þann 23 janúar síðastliðinn, við fengum
að heyra reynslusögur grænmetisbænda, álit Landverndar og Samtaka grænkera á
málaflokkinn og stefnu ólíkra stjórnmálaflokka frá þingmönnum. Málþingið gekk vonum
framar og ánægjulegt var að sjá hve mikil þverpólitísk samstaða ríkti og að það þyrfti
sannarlega að efla þennan málaflokk til muna til að uppfylla loforð okkar í loftslagsmálum,
fyrir heilsu og dýralíf. Streymi frá fundinum má finna hér:
http://www.graenkeri.is/blog/sjaid-streymid-fra-vel-heppnudu-malthingi


Hversu langt er síðan þú varðst vegan og afhverju fórstu út í það?
Ég varð vegan fyrir rúmlega 4 árum og það var vegna þess að ég er dýravinur og gat ekki
réttlætt það fyrir mér lengur að borða dýr eða neitt sem frá þeim kemur. Ég hætti að borða
spendýr 12 ára gömul þegar ég varð vitni að slátrun grísa í sláturhúsi á Austurlandi og var í
mjög mörg ár “fiskiæta” (pescaterian) sem át einnig mjólkurvörur og egg. En það var
viðsnúningur þegar ég áttaði mig á því hvernig mjólkur- og eggja framleiðsla gengur fyrir sig

og ég missti alla lyst á að borða þessar vörur. Fyrir mér eru dýr ekki matur, það að sú
ákvörðun hefur jákvæð áhrif á heilsu mína og umhverfið í heild er plús.


Fannstu mun á þér við að breyta um mataræði?
Já ég fann fyrir miklum mun, ég varð orkumeiri, mígreni sem hafði hrjáð mig snarbatnaði og
exem sem ég var með hvarf. Ég hafði aldrei verið mikið fyrir að stunda íþróttir, hafði verið
með áreynsluastma og lítið þol en eftir nokkra mánuði vegan var ég komin í crossfit og farin
að klífa fjöll án þess einu sinni að þurfa að taka astmapústið með mér og samt var ég þá
orðin 36 ára gömul. Hefði einhver sagt mér að ég myndi geta þetta ári fyrr þá hefði ég hlegið
að viðkomandi.


Hafið þið séð mikla breytingu eftir að félagið var stofnað, eru fleiri og fleiri sem aðhyllast
lífsstílinn?

Við höfum séð mjög mikla breytingu, ef við tökum þann tíma sem ég hef verið grænkeri þá
voru um 2500 manns í Vegan Ísland hópnum okkar árið 2016 en nú eru um 23.000 manns í
hópnum og alltaf bætist við. Það er mjög gott úrval orðið í öllum stórmörkuðum og á
veitingastöðum um allt land og lítið mál að vera grænkeri á Íslandi í dag. Ég tel aukna vitund
um umhverifsáhrif dýralandbúnaðar vera helsta orsök þess að fólk prufar að taka upp
þennan lífstíl eða minnkar kjötát að einhverju ráði en svo þegar það finnur mun á heilsunni
og fræðist meira um aðstæður dýra í iðnaðinum þá heldur það áfram.
Við í samtökum grænkera erum öll sjálfboðaliðar, við erum öll í fullri vinnu annarsstaðar og
rekum samtökin á styrkjum sem við sækjum um og notaðir eru í fræðsluefni, í viðburði og
auglýsingaefni en þiggjum engin laun sjálf og erum ekki einu sinni með eigin skrifstofu.
Við hvetjum öll áhugasöm að skoða heimasíðu samtakanna www.graenkeri.is

Hluti úr þessu viðtali var birtur í Tímariti Bændablaðsins vor 2020  Mynd TB hjá Bændablaðinu