Return to site

Vegna frétta af blóðmerahaldi

Við í Samtökum grænkera á Íslandi höfum margoft bent á og fordæmt blóðmerahald það sem stundað er á Íslandi.

Flest önnur ríki sem við mælum okkur við, þ.á.m Evrópusambandsríkin öll, hafa látið af þessari hryllilegu iðju af dýravelferðarástæðum.

Bæði Ísteka, fyrirtækið sem kaupir og selur blóð úr merum, og MAST hafa þegar við höfum bent á þetta dýraníð gefið út yfirlýsingar þess efnis að vel sé fylgst með þessum iðnaði á Íslandi.

Annað kemur nú í ljós og sannast það sem við höfum varað við, að hræðilega sé farið með hryssurnar. Við ættum að krefjast þess öll sem eitt að þessi iðnaður verði lagður af hið snarasta!

Úr blóði meranna er unnið frjósemislyf fyrir svín. Áhrifamesta leiðin til að mótmæla þessari iðju er að fordæma blóðmerahald og hætta að kaupa svínaafurðir og folaldakjöt sem er hliðarafurð blóðmerahalds (blóð er dregið úr fylfullum hrossum og folöldin drepin og kjöt þeirra selt).