Return to site

Umsögn vegna aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum

Barst Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu 8. Júlí 2020

Birt í samráðsgáttinni 24. september 2020

Rými til þess að gera betur

Samtök grænkera á Íslandi fagna því að uppfærð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hafi litið dagsins ljós en harma að sama skapi aðgerðaleysi stjórnvalda þegar kemur að landbúnaði og neyslu á dýraafurðum hér á landi.

Í skýrslunni kemur fram að ungmenni á Íslandi vilji að dregið sé úr kjötneyslu og að sú áhersla endurspeglist í aðgerðaáætluninni. Þó er aðeins finna eina aðgerð sem snýr að því að draga úr kjötneyslu (og hún veikt orðuð). Losun frá landbúnaði er gífurlega mikil en árið 2018 var hún 13% af heildarlosun sem við berum beina ábyrgð á. Aðgerðirnar í landbúnaði eru þær metnaðarlausustu í nýrri áætlun en stefnt er að 10-20% minni losun árið 2030 en árið 2005. Það er sannarlega rými til þess að gera betur.

Er málefnið tabú?

Það má velta því fyrir sér ástæðunum fyrir þessu metnaðarleysi. Erum við hrædd við að ræða það að kjötneysla er óumhverfisvæn? Talið er að losun landbúnaðarins á gróðurhúsalofttegundum muni vaxa að óbreyttu um 80 prósent fyrir árið 2050. Meira að segja Landlæknir hefur tilgreint að Íslendingar borði of mikið kjöt, en þó er eins og enginn vilji raunverulega hvetja þá til þess að minnka neysluna. Þess í stað á að stefna að kolefnishlutleysi í nautgriparækt, en nautakjöt er óumhverfisvænasta kjöt sem völ er á ef horft er á losun þess. Ræktun plöntufæðis/korns til nautgripa þarf 18 sinnum meira landflæmi en ræktun fyrir mannfólk og naut þarf 10 sinnum meira vatn en manneskja.

Samtökunum finnst stjórnvöld eiga að vera til fyrirmyndar þegar kemur að loftslagsvænu mataræði. Hvers vegna er ekki boðið uppá grænkerafæði í öllum opinberum stofnunum og matarspor Eflu eða sambærilegur kolefnisreiknir settur upp í mötuneytunum? Við fögnum því að stjórnvöld ætli að gera innkaup vistvænni en fram kemur í áætluninni að „stefna ætti að því að halda neyslu á rauðu kjöti í hófi“ en þetta orðalag þykir okkur helst til veikt og óljóst. Við viljum gjarnan fá að fylgjast með þeirri framkvæmd og hvernig standa á að henni. Við viljum þó sjá stjórnvöld stíga ekki bara skrefinu lengra, heldur 100 skrefum lengra.

Fyrirmyndir

Það tíðkast í Þýskalandi og Portúgal bjóða ekki upp á kjöt á opinberum viðburðum, vegna umhverfissjónarmiða. Í ​Portúgal er það jafnframt lagaleg skylda að bjóða uppá grænkerafæði í öllum mötuneytum í opinberum stofnunum. Auk þess þurfa allir veitingastaðir að bjóða uppá grænkerafæði. Í kjölfar þessara breytinga hefur fjöldi grænkera ​aukist um 552% ​frá árinu 2014. Víðsvegar um heim hefur ​skólasamfélagið tekið við sér og í auknum mæli boðið ungmennum uppá kjötlausa rétti vegna vitundavakningar í loftslagsmálum.

Styrkjum stöðu grænmetisbænda!

Það er einlæg ósk okkar í samtökunum að aðgerðaráætlun í umhverfismálum hvetji til nýsköpunar og endurmenntunar með sjálfbær markmið í huga í landbúnaði og styrki bændur til frekari grænmetis- , ávaxta- og kornræktunar (t.d. hafra og hamps). Ef grænmetisbændur fengju til að mynda kílówattið af rafmagni á sama verði og álverin fá þá væru þeir í mun betri málum og gætum ræktað allan ársins hring en eins og er þá loka flestir yfir svartasta skammdegið. 200 milljóna aukning í fjárframlög á ári er alls ekki nóg og í engu samræmi við þá milljarða sem veittar eru til niðurgreiðslu við kjöt- og mjólkurframleiðslu. Það er krafa neytenda á kaupmenn að hafa íslenskt grænmeti á boðstólnum allan ársins hring en þeir geta illa verið við þeirri kröfu og flytja inn mestallt grænmeti yfir vetrartímann en á sama tíma er offramboð og förgun á dýraafurðum. Nýtni megavatts af rafmagni til grænmetisræktunar er 5-10 störf á móti 0,5 starf í álframleiðslu svo reikningsdæmið er ekki flókið.

Gerum betur!

Unga fólkið okkar hefur ​mótmælt síðastliðið ár og haldið umræðunni á lofti, þau eru tilbúin og ​þora að taka stór skref í umhverfisvænni lífsstíl en stjórnvöld fylgja ekki með. Aðgerðaráætlun stjórnvalda er duglaus og langt á eftir ríkjum sem við viljum miða okkur við. Við viljum sjá mun metnaðarfyllri markmið af hálfu stjórnvalda. Það þarf að stuðla að minni neyslu dýraafurða og meiri framleiðslu grænkerafæðis, með tilheyrandi rannsóknum og nýsköpun, til að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum.