Return to site

Opið bréf til Embættis landlæknis

Svar Samtaka Grænkera á Íslandi við grein Landlæknis "Jurtafæði- hvað felst í því?" sem birtist 24 janúar 2019.

Opið bréf til Embættis landlæknis

Þann 24. janúar 2019 birti Embætti landlæknis grein undir heitinu Jurtafæði – Hvað felst í því? eftir Hólmfríði Þorgeirsdóttur og Elvu Gísladóttur sem eru verkefnastjórar næringar hjá Embætti landlæknis. Birting greinarinnar átti sér stað fimm dögum áður en Samtök grænkera á Íslandi stóðu fyrir málþingi undir yfirskriftinni Mataræði og mannréttindi: ábyrgð ríkis og sveitarfélaga. Málþingið var haldið í tilefni af Veganúar 2019 og sat Hólmfríður Þorgeirsdóttir, annar höfunda greinarinnar, í pallborði fyrir hönd Embætti landlæknis[1]. Eftir fróðlegar framræður hófst fjörug umræða með fólki utan úr sal. Það sem brann helst á grænkerum var grein sem hafði birst sama dag í DV undir heitinu Landlæknir varar við veganisma: „Ekki viðunandi næring“. Grein DV er byggð á greininni frá Embætti landlæknis sem nefnd var hér í upphafi og birtir vel valda búta þar sem varað er við því að vera á „ströngu jurtafæði“. Jafnvel þó grein DV sé í sínum æsifréttastíl þá gerir hún lítið annað en að endurbirta valin texta beint úr greininni Jurtafæði – Hvað felst í því?. Á fundinum gagnrýndu grænkerar úr sal sumt af því sem var sagt í grein Hólmfríðar og Elvu og bentu á hvað mætti betur fara. Síðan þá hefur greinin staðið nær alveg óbreytt frá birtingu. Samtök grænkera á Íslandi vilja því nýta þetta opna bréf til þess að gagnrýna grein Embætti landlæknis og varpa skýru ljósi á hvað það er sem grænkerar óska eftir af Embætti landlæknis. Bréfinu er þó einnig beint til annarra opinberra stofnanna, einkarekinna fyrirtækja og stjórnmálaflokka til upplýsinga.

Grein Embætti landlæknis: Jurtafæði - Hvað felst í því?

Til þess að gera grein Embættis landlæknis góð skil verður fjallað um alla kafla hennar. Kaflarnir eru fimm talsins:

 • Inngangur
 • Nokkrar mismunandi tegundir jurtafæðis
 • Hvað felst í slíku mataræði?
 • Þarf að taka vítamín og steinefni sem fæðubótarefni?
 • Viðkvæmir hópar


Inngangur greinarinnar er um margt góður og þar stendur meðal annars „Hollt mataræði og umhverfissjónarmið haldast í hendur“ og „Það er heilsufarslegur ávinningur af því að borða mikið af grænmeti, ávöxtum, berjum, ertum, baunum og öðrum mat úr jurtaríkinu“. Inngangi lýkur á orðunum „Það er ávallt mikilvægt að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi, einnig fyrir þá sem neyta jurtafæðis.“ Hér gætir að fyrsta atriðinu sem er gagnrýnivert. Vissulega er það líklega gott ráð að leggja til fjölbreytni við mataræði en hvers vegna þarf að taka fram að það gildi einnig um þá sem neyta jurtafæðis. Það myndi engum detta í hug að krafan um fjölbreytt mataræði yrði gengisfelld með því að nærast á jurtafæði. Með því að setja vekja sérstaka athygli á að þetta gildi einnig um jurtafæði gefa höfundar greinarinnar til kynna að kannski sé ekki allt með felldu að nærast á jurtafæði þar sem að það krefjist sérstaklega fjölbreytni í mataræði. Með þessu er hægt að lesa svo úr að torvelt sé að fá öll nauðsynleg næringarefni úr jurtafæði.

Næsti kafli Nokkrar mismunandi tegundir jurtafæðis skilgreinir hvaða merkingu höfundar leggja í hugtakið jurtafæði. Til glöggvunar er endurbirt hér greining Embættis landlæknis en þar kemur fram að jurtafæði sé yfirleitt flokkað í eftirfarandi flokka:

 • Grænkerafæði (e. Vegan) sem er eingöngu jurtafæði þá er allt úr dýraríkinu útilokað það er að segja kjöt, fiskur, egg og mjólkurvörur.
 • Jurtafæði með eggjum (e. Ovo vegetarian).
 • Jurtafæði með mjólkurvörum (e. Lacto vegetarian).
 • Jurtafæði með mjólkurvörum og eggjum (e. Lacto-ovo vegetarian).
 • Jurtafæði með fiski (e. Pescetarian), þá er auk jurtafæðis borðaður fiskur og sjávarafurðir og oft einnig mjólkurvörur og egg.
 • Aðallega jurtafæði (e. Flexitarian), þá er aðallega borðað jurtafæði en af og til dýraafurðir

Þetta er ágætis upptalning á mismunandi matarvenjum fólks en nú er ljóst að orðið jurtafæði hefur, samkvæmt höfundum, mun víðtækari merkingu heldur en orðið gefur til kynna í fyrstu og blasir titill greinarinnar öðruvísi við. Á greinin við um alla þessa flokka jurtafæðis? Eftir að hafa lesið þessa skilgreiningu á jurtafæði þá er niðurstaðan sú að þó að fólk sé á jurtafæði þá veigri það sér samt sem áður ekki við að láta ofan í sig kúamjólk, hænuegg eða hold dauðra dýra. Það er einhvernveginn ekki það sem kemur til hugar þegar maður heyrir orðið jurtafæði. Greinin tekur þó fram að allir þessir flokkar eigi það sameiginlegt að „grunnurinn í mataræðinu er matur úr jurtaríkinu“ en það er erfitt að sjá það út frá skilgreiningunni og ekki ljóst hvernig það er metið.

Greinin útskýrir einnig að flokkarnir lýsi mismundi stigum af jurtafæði „eftir því hversu langt er gengið í að útiloka mat úr dýraríkinu“. Eins og lýst er hér á eftir, þá tekst höfundum með þessum hætti, í grein um jurtafæði, að fjalla um næringarlegan ávinning þess að borða dýraafurðir. Með þessu er sterklega gefið í skyn að efsta stigið, grænkerafæði, sé kannski ekki svo heppilegt mataræði til þess að lifa eftir. Svo má spyrja hversu gagnlegt er að hafa umræðuefnið svona breitt? Hverja er verið að þjónusta með þessum skrifum? Eru þeir sem borða jurtafæði með eggjum, þeir sem borða jurtafæði með fiski eða þeir sem borða aðallega jurtafæði að kalla eftir ráðleggingum og upplýsingum frá Embætti landlæknis?

Eins og þessi upptalning greinarinnar væri ekki nóg þá endar kaflinn á því að höfundar nefna annan flokk inn í umræðuna, svokallað „sjálfbært mataræði (e. Sustainable diets) þar sem mikið er neytt af jurtafæði en einnig eitthvað úr dýraríkinu, kjöt, egg, fiskur og mjólkurvörur þó þetta flokkist e.t.v. ekki sem jurtafæði“. Hér taka höfundar fram að kjöt, egg, fiskur og mjólkurvörur úr dýraríkinu flokkist ef til vill ekki sem jurtafæði jafnvel þó aðrir flokkar hér að ofan, sem innihalda nákvæmlega þetta, flokkist allir undir jurtafæði. Einnig er erfitt að sjá á greininni hver munurinn er á „sjáfbæru mataræði“ og „aðallega jurtafæði“. Hvenær getur einstaklingur sagst borða „sjálfbært mataræði“ og hvenær getur einstaklingur sagst borða „aðallega jurtafæði“? Hvers vegna þurfti að minnast á þennan nýjan flokk? Það er erfitt að sjá hvernig hægt er að skilgreina þá sem borða allan mat sem einstaklinga sem fylgja jurtafæði og flækir fyrir allri umræðu um það sem Embætti landlæknis vill kalla jurtafæði.

Kaflinn Hvað felst í slíku mataræði? byrjar á að endurtaka möntruna að það sé „ávallt mikilvægt að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi“ og hikar ekki við að undirstrika „einnig fyrir þá sem neyta jurtafæðis“ ef ske kynni að fólk hafi ekki náð því í fyrsta skipti. Síðan fylgja upplýsingar og listi yfir helstu fæðutegundir sem æskilegt sé að neyta ef maður er á jurtafæði. Listinn er eftirfarandi:

 • Belgjurtir, eins og baunir, ertur og linsur, sojaostur (tófú) og aðrar sojavörur.
 • Heilkornavörur, t.d. hafragrjón, bygg hýðishrísgrjón, heilkornabrauð og heilkornapasta.
 • Grænmeti.
 • Ávextir og ber.
 • Hnetur og fræ.
 • Hreinar og fituminni mjólkurvörur og ostar.
 • Drykkjarvörur, t.d. vatn, mjólk, vítamín- og kalkbættir jurtadrykkir t.d. soja-, hafra og hrísdrykkir. Rétt er að benda á að hrísdrykkir eru ekki fyrir börn yngri en 6 ára þar sem þeir geta innihaldið arsen í of miklu magni.
 • Jurtaolíur, t.d. rapsolía og ólívuolía. Rapsolía inniheldur ómega-3 fitusýrur en þar sem fiskur er oft ekki hluti af jurtafæði getur verið lítið af löngum ómega-3 fitusýrum í mataræðinu. Það er að vísu ekki sama tegund af ómega-3 fitusýrum í rapsolíu og fiski en líkaminn getur umbreytt hluta af þeim fyrrnefndu í langar ómega-3 fitusýrur. Valhnetur innihalda einnig ómega-3 fitusýrur.

Þetta er ágætis listi en þó ekki fullnægandi né laus við vankanta. Fyrir það fyrsta, og skiptir kannski ekki miklu máli, þá er tófu aldrei kallaður sojaostur í daglegu tali. Sojaostur er eitthvað allt annað en tófú. Greinin tekur fram að sumt í listanum eigi ekki við um grænkera og það kemur fyrst fram í umfjöllun um drykkjarvörur en þar kemur fram að mjólk sé talin æskileg fæðutegund. Einnig er tekið fram að „kalkbættir jurtadrykkir“ séu æskilegir. Með þessu orðalagi er ljóst að með mjólk eigi höfundar við kúamjólk og veigra sér við því að kalla mjólk eins og haframjólk, möndlumjólk, sojamjólk og hrísmjólk mjólk og velja frekar að kalla slíka mjólk „kalkbætta jurtadrykki“. Hér taka höfundar einnig fram að hrísmjólk er ekki fyrir börn undir 6 ára aldri vegna þess að hún innihaldi of mikið af arseni. Hér vakna spurningar. Skiptir magnið af hrísmjólk einhverju máli? Er eitt glas af hrísmjólk á viku óæskileg 5 ára barni? Hversu mikið af arseni er í hrísmjólk? Hvað eru hættuleg mörk? Eru varnaðarorð þess efnis á umbúðum á hrísmjólk úti í búð? Er arseneitrun í ungum krökkum vandamál í íslensku heilbrigðiskerfi? En grjón almennt, eru þau í lagi? Og fyrst verið er að slá varnagla, hvers vegna þá ekki slá nokkra í sambandi við neyslu á kúamjólk? Það er jú hluti af jurtafæði samkvæmt skilgreiningu greinarinnar. Er segjum, kúamjólk og kúarjómi æskileg fæða fyrir fullorðið fólk yfir fimmtugt?

Í umfjölluninni um olíur taka höfundar fram „Rapsolía [repjuolía] inniheldur ómega-3 fitusýrur en þar sem fiskur er oft ekki hluti af jurtafæði getur verið lítið af löngum ómega-3 fitusýrum í mataræðinu.“ Þessi setning er illa orðuð og má lesa hana svo að það sé mikið af repjuolíu í fiski en repjuolía er þó unnin úr plöntum en ekki fiski. Meining höfunda er að líkindum sú að benda á að ómega 3 fitusýrur er að finna í miklu magni í fiski og að þeir sem ekki neyta fisks þurfi að huga sérstaklega að ómega 3 fitusýrum í mataræðinu. Höfundum tekst að nefna að valhnetur innihalda ómega 3 fitusýrur en láist þó að nefna að hörfræ, hampfræ, chiafræ og olíur unnar úr þessum fræum innihalda einnig ómega 3 fitusýrur. Höfundum er í mun um að taka fram að ómega 3 fitusýrur úr fiski séu af löngu gerðinni en líkaminn þurfi að umbreyta ómega 3 fitusýrum sem við fáum úr plöntum, þessum stuttu, yfir þessa löngu gerð. Er þetta mikilvægt atriði? Hversu heftandi er það að fá ekki þessar löngu ómega 3 fitusýrur beint úr matnum? Er þetta mikið og hættulegt álag á líkamsstarfsemina að þurfa að breyta þessum stuttu ómega 3 fitusýrunum yfir í þessar löngu? Bendir líkamlegt ástand grænkera til þess? Eða er þetta ef til vill eitthvað sem skiptir í raun litlu máli?

Eftir þessa upptalningu Embættis landlæknis á hvað teljist sem æskilegar fæðutegundir fyrir þá sem neyta jurtafæðis vekur athygli að hvorki egg (fyrir þá sem neyta jurtafæðis með eggjum) né dýrakjöt (fyrir þá sem neyta aðallega jurtafæðis) er á listanum. Er ekki verið að gefa þeim ráðleggingar eða geta lesendur dregið þá ályktun að hænuegg og dýrakjöt séu samkvæmt Embætti landlæknis ekki æskilegar fæðutegundir?

Kaflinn Þarf að taka vítamín og steinefni sem fæðubótarefni? byrjar á því að segja:
 

Eftir því sem fleiri fæðutegundir eru útilokaðar úr mataræðinu því mikilvægara er að vanda vel valið og velja matvæli sem innihalda þau efni sem líkaminn þarf á að halda. Ef mjólk og egg eru hluti af mataræðinu, svo ekki sé nú talað um fisk, þá er þetta mun auðveldara en ef ekki er neytt neinna dýraafurða.

Hér er ýjað að því að nærast á grænkerafæði sé vandasamt verk sem krefjist meiri vinnu heldur en fyrir einstaklinga sem neyta dýraafurða. Dýraafurðum á borð við kúamjólk og hænuegg er hampað og fiskur er settur á stall sem lofsverð uppspretta næringar. Hér er erfitt að skilja orð Embættis landlæknis öðruvísi en svo að ekki sé mælt með því að vera á grænkerafæði og fólk hvatt til þess að neyta í það minnsta einhverra dýraafurða; það sé öruggara og auðveldara. Hér virðist sem höfundar átti sig ekki almennilega á því hvað felst í því að vera grænkeri. Það er ekki flókið að vera grænkeri og það er ekki svo að grænkerar þurfi að eyða löngum stundum í að vanda val sitt þegar það kemur að því hvað þeir ákveði að borða frá degi til dags. Það kann að vera að einhverntíma á 20. öldinni hafi það verið svo en breyttir tímar bjóða upp á gott úrval og aðgengi bæði að grænkeramat og upplýsingum.

Það kann að vera að grænkerar ættu að taka einhver fæðubótaefni en greinin nefnir einmitt að grænkerar þurfi eftirfarandi fæðubótaefni:

 • B12 vítamín
 • D-vítamín
 • Joð (fyrir þá sem hvorki borða þara né neyta joðbættra vara reglulega)

Þetta eru upplýsingar sem er gott fyrir grænkera að vita. Það hefði samt verið viðeigandi, fyrst verið er að fara um víðan völl hvort sem er, að höfundar hefðu tekið fram að notkun á fæðubótaefnum á við um nær alla, grænkera jafnt sem aðra. Er til dæmis ekki mælt með fyrir alla að taka D-vítamín? Ef svo er, hversu mikil viðbót er það að taka einnig B12 og joð? Er B12 skortur einskorðaður við grænkera eða þurfa jafnvel þeir sem neyta dýraafurða að taka inn B12? Það taka mjög margir inn fæðubótaefni og það einskorðast ekki við grænkera. Að taka inn fæðubótaefni er ekki erfitt né vandasamt og ætti ekki að vera stillt upp sem slíku. Það er meira að segja hægt að kaupa vítamínsprey sem innihalda nákvæmlega þessi þrjú fæðubótaefni í einu sem gerir hið meinta erfiðisverk ennþá auðveldara fyrir grænkera.

Næst tekur greinin fram að „Þeir sem borða lítið af mjólk og eggjum þurfa einnig að huga að þessum efnum. Önnur vítamín og steinefni sem er rétt að hafa í huga þegar valin eru matvæli úr jurtaríkinu eru B2- og B6-vítamín, kalk, járn, selen og sink“ og bendir á viðbótarskjal sem fylgir greininni um hvar þessi vítamín og steinefni megi finna. Viðbótarskjalið, sem ber heitið Jurtafæði – í hvaða matvörum er þessi næringarefni helst að finna?, kappkostast samt engu að síður við það að benda lesandanum á að mörg þessara næringarefna sé helst að finna í dýrum og dýraafurðum.

Seinasti kafli greinar Embættis landlæknis kallast Viðkvæmir hópar. Hér sjá höfundar ástæðu til að negla nokkra varnagla til viðbótar ef það skyldi ekki hafa verið komið skýrt fram að grænkerafæði sé kannski ekki svo æskilegt að mati Embætti landlæknis. Varúðarorðin byrja á: „Jurtafæði án mjólkur og eggja, þ.e. grænkerafæði (e. Vegan), er ekki viðunandi næring fyrir ungbörn (0-1 árs) nema sérstök kunnátta eða ráðgjöf komi til“. Hérna eru orðin sem blaðamaður DV fann til þess að skella í titil greinar sinnar sem hefur orðið ærið hlökkunarefni þeirra sem tala gegn veganisma. En setningin útilokar þó ekki að ungbörn (0-1 árs) geti verið á grænkerafæði heldur nefnir að það krefjist sérstakrar kunnáttu eða ráðgjöf þurfi að komi til. Nú væri gott að vita hvaða kunnátta er foreldrum nauðsynleg til þess að geta alið barnið sitt á grænkerafæði og er þessi ráðgjöf ef til vill eitthvað sem Embætti landlæknis gæti deilt með grænkerum? Nú eru margir grænkerar sem sem ala börnin sín upp á grænkerafæði án þess þó að hafa sérstaka kunnáttu eða leitað sér faglegrar ráðgjafar og tekst vel til. Getur verið að þessi sérstaka kunnátta og ráðgjöf sem vísað er til sé kannski ekki endilega svo sérstök og sé á færi margra þeirra foreldra sem eru grænkerar?

Greinin heldur áfram með því að taka fram að „Jurtadrykkir henta ekki ungbörnum heldur er mælt með brjóstagjöf en fyrir þau börn sem ekki eru á brjósti eða fá ekki nóg er mælt með ungbarnablöndu til hálfsársaldurs og svo stoðblöndu eftir það.“ Hér er aftur á ferðinni klúðurslegt orðalag sem má misskilja þannig að grænkeramæður forðist að hafa börn sín á brjósti. Því fer auðvitað fjarri og engin ástæða til þess að ætla að grænkeramæður séu eitthvað líklegri að gefa ekki börnum sínum brjóst, eins lengi og kostur og þörf er á því. Ef einhver heldur því fram að brjóstamjólk sé ekki hluti af grænkerafæði vegna þess að það sé dýraafurð þá hefur sá hinn sami ekki haldbæra þekkingu á hvað felst í því að vera grænkeri. Hvers vegna þarf, í grein um jurtafæði, að taka fram að það sé mælt með að gefa nýfæddum börnum brjóst?

Greinahöfundar halda áfram að hringja viðvörunarbjöllum og segja að „Aðrir viðkvæmir hópar, eins og barnshafandi konur og konur með börn á brjósti, þurfa einnig að vanda val sitt á matvælum“. Hvers vegna þarf að taka fram hér að viðkvæmir hópar þurfi að vanda val sitt á matvælum? Og hvers vegna er lögð áhersla á að barnshafandi konur og konur með börn á brjósti séu viðkvæmir hópar? Auðvitað þurfa konur í þessum aðstæðum að passa vel upp á hvað þær setja ofan í sig og börnin sín en það kemur jurtafæði lítið við. Konur í þessum aðstæðum, sama hvaða mataræði þær kjósa, þurfa líklega að gera það. Með því að slá þennan varnagla er sterklega gefið í skyn að jurtafæði henti almennt ekki barnshafandi konum eða konum með börn á brjósti. En því fer fjarri sanni. Er mikið um að grænkeramæður nái ekki að sjá fyrir börnum sínum með viðunandi næringu? Og fyrst verið er að negla varnagla mætti þá ekki alveg eins taka fram, til þess að gæta allra hópa, að fyrir margar mæður er ekki hentugt að neyta kúamjólkur á meðan á brjóstagjöf stendur? Og að barnshafandi konur ættu ekki að borða reyktan lax eða hráan lax vegna hættu á listeríusmiti (listería getur líka verið í eggjum, kjúkling, kavíar og öllum öðrum hráum fisk).

Í lokin á málsgreininni er tekið fram „Ungbörn á grænkerafæði geta fengið ungbarnablöndu gerða úr sojamjólk (soja próteinum).“ Þessi setning var ekki í greininni þegar hún birtist fyrst og fagna Samtök grænkera á Íslandi að þessu hafi verið bætt við. Það er því ljóst að grænkerafæði hentar öllum aldurshópum, einnig þeim allra minnstu. Heppilegast er fyrir ungviði að næring sé nær eingöngu brjóstamjólk en jafnvel í þeim tilvikum þar sem ekki gengur að gefa brjóstamjólk þá er möguleiki fyrir hendi, fyrir þá sem slíkt kjósa, að nota stoðmjólk úr soja próteinum.

Grein Embætti landlæknis kórónar síðan umfjöllunina sína um jurtafæði með þessu fróðleikskorni:

Eins má nefna að grænkerafæði hentar illa fyrir einstaklinga með litla matarlyst og sem borða lítið (t.d. hrumt eða veikt eldra fólk) þar sem kjöt og mjólkurvörur veita mikilvæga orku og prótein og önnur næringarefni í minni skömmtum en jurtafæði.

Þetta er alveg stórundarleg málsgrein og vekur furðu að hún skuli finna sér stað hér. Hvernig í ósköpunum getur grænkerafæði hentað illa fyrir einstaklinga með litla matarlyst og þá sem borða lítið? Er ekki nær allt fæði gott fyrir slíka einstaklinga? Er þetta almennt viðeigandi í þessari umræðu? Er mikið um að slíkir einstaklingar séu á grænkerafæði? Næringarefni matvæla eru breytileg og með mikla breidd, og með alla þá flóru sem nú finnst af próteinríku plöntufæði er það ekki rétt að halda því fram að almennt sé kjöt á einhvern hátt með yfirburði í þeim efnum. Hvers vegna er orka í kjöti mikilvæg? Er sú orka samkvæmt höfundum mikilvægari en orkur annarra matvæla? Það væri fróðlegt að fá skýringar á því.

Samantekt

Það er vonandi öllum ljóst að með grein sinni Jurtafæði - hvað felst í því? er Embætti landlæknis ekki að gera grænkerum neinn greiða. Greinin gaf fjölmiðlum færi á því að segja að „Landlæknir vari við veganisma“ og að vegan matur sé „ekki viðunandi næring“. Embætti landlæknis hefur ekki séð sig tilknúið til þess að svara fjölmiðlum til þess að mögulega leiðrétta einhvern misskilning sem þeir hafa valdið. Grein Embættis landlæknis setur fram marga varnagla í garð grænkerafæðis en þó er grænkerafæði ekki meira heilsuspillandi en annað fæði nema síður sé. Höfundar greinarinnar virðast trúa því að með því að vera á grænkerafæði þá sé á einhvern hátt erfitt og vandasamt verk að fá öll nauðsynleg næringarefni en það á ekki við rök að styðjast. Greinin skilgreinir jurtafæði á mjög víðtækan hátt sem gerir höfundum kleift að minnast iðulega á heilsufarslega kosti þess að neyta matar úr dýraríkinu í grein sem fjallar um jurtafæði. Meira að segja í viðbótarskjali við greinina sem á að varpa ljósi á hvar ákveðin næringarefna er að finna í jurtaríkinu er imprað á því að mörg þeirra sé helst að finna í dýraríkinu.

Í upphafi greinarinnar nefna höfundar að það sé „heilsufarslegur ávinningur af því að borða mikið af grænmeti, ávöxtum, berjum, ertum, baunum og öðrum mat úr jurtaríkinu“ en hvaða heislufarslegi ávinningur felst í því er ekki getið í grein Embættis landlæknis um jurtafæði. Í innganginum er líka tekið fram að „opinberar ráðleggingar um mataræði taki ekki eingöngu mið af hollustu heldur einnig atriðum eins og kolefnisspori matvæla.“, en þó var ekki minnst öðru orði á kolefnisspor eða önnur umhverfisáhrif matvæla í þessari grein um jurtafæði.

Hvað eru grænkerar og hvað vilja grænkerar?

Grænkerar borða ekki dýr né dýraafurðir. Fyrir utan það þá eru grænkerar bara fólk og vilja það sama og annað fólk vill. Grænkerar vilja að börnin sín fái mat í skólum og leikskólum. Grænkerar vilja fá mat á sínum vinnustöðum og grænkerar vilja ekki þurfa vera fyrir aðkasti eða áreiti vegna lífsskoðanna sinna.

Sér í lagi vilja grænkerar fá viðurkenningu þess efnis frá Embætti landlæknis að öllu jafna er vel hægt að nærast á grænkerafæði á öllum stigum lífsins, og grænkerar vilja fá opinberar ráðleggingar frá Embætti landlæknis hvernig best er staðið að því; fá upplýsingar um hvaða matvæli innihalda helstu næringarefni og hvaða fæðubótaefni er mælt með að taka. Ekkert meir. Ekkert minna.


Virðingarfyllst,
Samtök grænkera á Íslandi
26.11.2019

 

[1] Að auki voru í pallborðinu Salvör Nordal, umboðsmaður barna. Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi og formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, alþingiskona og Hildur Harðardóttir, sérfræðingur Umhverfisstofnunar á sviði loftslagsmála og græns samfélags.