Sælir elsku grænkerar og velunnarar,
Við viljum þakka ykkur fyrir dásamlegan dag á Vegan Festival 2025, sem var í alla staði einstaklega velheppnað, og ekki brást það að sólin skein sínu skærasta á gesti hátíðarinnar.
Nú er haustið komið með öllu sínu annríki, og við í stjórn SGÍ höfum verið önnum kafnar að skipurleggja næstu viðburði. Nóg er á döfinni næstu vikur.
Við ætlum, í samvinnu við Brynjuís í Kópavogi, að henda í einn laufléttan vegan ís-hitting sunnudaginn 28. september frá 14:00-16:00. Þetta verður óformlegur og kósý hittingur sem er tilvalin fyrir alla aldurshópa (því hver elskar ekki ís?).
Næst er svo komið að allra formlegri viðburði. Þann 7. október næstkomandi, klukkan 19:30, verður aðalfundur félagsins haldinn á Hallveigarstöðum í Reykjavík. Kosið verður um nokkrar stöður í stjórn SGÍ, og við hvetjum alla sem hafa áhuga á að sitja í stjórn félagsins eindregið um að bjóða sig fram. Okkur vantar alltaf gott fólk til að leiða félagið áfram.
Við hlökkum til að sjá sem flest ykkar á næstu viðburðum!
