Return to site

Ráðleggingar Landlæknis um vegan mataræði

Fyrstu opinberu ráðleggingarnar um vegan mataræði líta dagsins ljós

October 2, 2022

Þann 28. september síðastliðinn komu út ráðleggingar um grænkerafæði fyrir konur á meðgöngu og með barn á brjósti og börn upp að sex ára aldri. Ráðleggingarnar voru unnar af embætti landlæknis, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Þetta eru fyrstu opinberu ráðleggingarnar um grænkerafæði hér á landi og eiga þær sér tæplega tveggja ára langan aðdraganda. Þörfin fyrir ráðleggingarnar hefur farið sívaxandi en auk vegan fólks hafa ljósmæður í mæðra- og ungbarnavernd kallað eftir ráðleggingunum, þar sem algengara er orðið að þær sinni vegan barnshafandi konum.Í ráðleggingunum er m.a. hægt að fræðast um hvaða næringarefni eru sérstaklega mikilvæg á þessum tímabilum ævinnar. Ráðleggingarnar voru unnar í nánu samstarfi við Samtök grænkera á Íslandi og voru fulltrúar samtakanna í faghópnum þær Björk Gunnarsdóttir, Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, Hildur Ómarsdóttir og Eyrún Gísladóttir. Mikil ánægja ríkti með samstarfið og er það von okkar að því verði haldið áfram á næstu árum þar sem margt er enn ógert í málaflokknum.

Útgáfan markar tímamót fyrir vegan samfélagið á Íslandi, því með henni er hið opinbera raunverulega að mæta vegan fólki á Íslandi á þeirra forsendum og viðurkenna að vegan mataræði uppfylli næringarþarfir fólks að öllu leyti.