Return to site

Áskorun til ríkisstjórnar Íslands - Stöðvið og bannið hvalveiðar

Við biðlum til þín og ríkisstjórnarinnar að stöðva hvalveiðar við Ísland hið snarasta.Það hefur sýnt sig að hvalveiðar eru efnahagslega óskynsamlegar, þær eru skaðlegar fyrir loftslag, vistkerfi sjávar og ímynd þjóðarinnar.

Áskorun til ríkisstjórnar Íslands - Stöðvið og bannið hvalveiðar

Kæra Svandís.

Við biðlum til þín og ríkisstjórnarinnar að stöðva hvalveiðar við Ísland hið snarasta.

Það hefur sýnt sig að hvalveiðar eru efnahagslega óskynsamlegar, þær eru skaðlegar fyrir loftslag, vistkerfi sjávar og ímynd þjóðarinnar.

Við teljum allar forsendur fyrir þeim kvóta sem gefinn var út fyrir árin 2019-2023 brosnar og krefjumst þess að veiðar verði stöðvaðar.

Hvalveiðar brjóta lög um velferð dýra, ógna lífríki og vistkerfi sjávar, losa umtalsvert af CO2 út í andrúmsloftið og skaða ímynd Íslands.

Við getum ekki selt hreina og fagra ímynd Íslands í hvalaskoðunarferðum og á sama tíma drepið hvali .

Hvalveiðivertíðin hófst nú eftir fjögurra ára hlé þegar tvö skip Hvals hf. héldu til veiða. Þeim er heimilt að veiða 161 langreyði og 217 hrefnur. Langreyður er á válista yfir dýr í útrýmingarhættu samkvæmt samningi um alþjóðaverslun með tegundir í útrýmingarhættu (CITES) og Japan er eina ríkið sem verslar langreyðakjöt.

Endurnýjun hvalveiðikvóta 2019-2023


Þegar Kristján Þór Júlíusson var sjávarútvegsráðherra gaf hann út nýjan kvóta á veiðar á langreyðum og hrefnum til og með ársins 2023 og var hann einn um að taka þá ákvörðun, án nokkurra kosninga né samráðs við almenning. Hann rökstuddi þá ákvörðun meðal annars með tilvísun í “hagfræðiskýrslu” sem styrkt var af Kristjáni Loftssyni eiganda Hvals ehf. Þessi skýrsla hefur verið gagnrýnd harðlega af vísindasamfélaginu og m.a. leiðrétt af Vistfræðifélagi Íslands.

„Þessi skýrsla telst tæplega merkilegt gagn til vandaðrar umræðu um nýtingu náttúruauðlinda landsins. Til þess er hún of yfirborðsleg og hlutdræg og, sér í lagi óvönduð m.t.t. líffræði og vistfræði. Að reiða fram 20 ára upplýsingar og eldri um fæðu hvala, stilla upp áti þeirri samhengislaust og styðjast við einfalt, 20-30 ára gamalt "fjölstofnalíkan", sem alþjóðavísindasamfélagið hefur hafnað sem ónothæfu og prófessor emeritus við H.Í. skaut á kaf fyrir tæpum 10 árum (vegna fyrri skýrslu Hagfræðistofnunar, C10:02), er óboðlegt og æðstu vísindastofnun landsins til vansa.” Hilmar J. Malmquist líffræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.

Áhrif hvalveiða á loftslagið
Loftslagsbreytingar eru stærsta vá nútímans fyrir jörðina og allt mannkyn.

Einn hvalur bindur kolefni á við 1000 tré, með því að kafa á sjávarbotn og ferðast um höfin, framleiða þeir næringarrík úrgangský og þegar þeir enda lífdaga sína í hafinu sjálfu og sökkva til botns sjá þeir um grundvallarkolefnisbindingu fyrir loftslagið. Þannig eru þeir einn mikilvægasti hlekkurinn í baráttu okkar gegn loftslagsbreytingum. Þegar hvalir eru veiddir og verkaðir losa þeir hins vegar kolefni út í andrúmsloftið.

Ef Hval ehf. tekst ætlunarverk sitt, að veiða 161 langreyði í sumar, jafngildir losunin sem því fylgir því að fella um 161.000 tré.

Hvalir styrkja fiskistofna

Næringarefni frá hvölum styrkja svif og önnur smádýr; fjölgun þeirra styrkir fiskistofna, stóra sem smáa, og á endanum hvalina sjálfa. Hvalir gefa meira en þeir taka.

Efnahagslega óskynsamlegar veiðar

Velgengni hvalaskoðunarfyrirtækja á Íslandi sýnir okkur afdráttarlaust að hvalir eru mun verðmætari lifandi en dauðir.

Hvalur ehf. þénar um eina milljón króna fyrir hvern veiddan hval (ef það næst að selja kjötið).

Hvalaskoðunarfyrirtæki þéna hins vegar svipaða fjárhæð fyrir eina hvalskoðunarferð með um 125 gestum. Japan er eina ríki heims sem verslar langreyðakjöt og önnur ríki hafa bannað kaup og sölu á hvalkjöti og neita að leyfa skipum með hvalkjöti að koma í höfn á leið sinni frá Íslandi til Japans. Kristján Loftsson sat jafnframt uppi með 3,6 milljarða virði af hvalkjöti sem Japanir neituðu að taka við árið 2016. Þessi dráp eru því til einskis.

Menningararfleifð

Sú mýta sem jafnan er haldið fram, að sterk hefð sé fyrir hvalkjötsáti á Íslandi, á sér ekki stoð í raunveruleikanum heldur er þetta eitthvað sem við lærðum af Norðmönnum fyrir nokkrum áratugum. Kannanir sýna að lágt hlutfall Íslendinga neyti hvalkjöts í Gallupkönnun árið 2017 sögðust aðeins 1 prósent Íslendinga borða hvalkjöt reglulega, 81 prósent sögðust aldrei hafa borðað það. Ekki er kjötið heldur hollt en rannsóknir á hvalkjöti sýna fram á eituráhrif kjötsins vegna hás innihalds þungmálma, skordýraeiturs og mengunarefna.

Hvalveiðar skaða ímynd Íslands

Samkvæmt nýrri könnun sem Maskína gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands telja nærri tveir þriðju aðspurðra, 64,3 prósent, hvalveiðar skaða orðspor Íslands.

Sam­kvæmt skýrslu Ice­land Naturally var neyt­enda­könn­un­ framkvæmd í Banda­ríkj­un­um í maí árið 2018 þar sem meðal ann­ars fram að 53% voru mjög opin fyr­ir því að ferðast til Íslands og 59% voru mjög áhuga­söm að læra meira um landið.

Þegar spurt var um af­stöðu til hval­veiða sögðust 50% vera á móti þeim. 49% aðspurðra sögðust ætla að sniðganga afurðir frá lönd­um sem stunda hval­veiðar eins og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar hefur bent á. Hann segir könnunina sýna að viðhorf Íslendinga sé að breytast. Hvalaskoðun sé farin að skila miklum ávinningi sem ein af höfuðafþreyingum ferðaþjónustu. Jóhannes segir hvalaskoðun gegna lykilhlutverki á nokkrum landsvæðum og eigi mikið inni. „Við höfum mörg augljós og skrásett dæmi um að fólk í okkar helstu markaðslöndum, Mið Evrópu og Bandaríkjunum, sniðgangi bæði ferðir til Íslands og íslenskar vörur út af hvalveiðum.“

Kvalarfullur dauðdagi hvala brot á lögum um dýravelferð

Skýrsla sem norsk yfirvöld sendu Alþjóðahvalveiðiráðinu (IWC) sýndi fram á að næstum 20% af hvölum sem skotnir voru með penþrít sprengiskutli hafi þjást í um 6-25 mínútur eftir að skotið á sér stað þar til þeir deyja að lokum. Þetta er brot á lögum um velferð dýra:

21. gr. Aflífun. -Dýr skulu aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti og eftir því sem unnt er án þess að önnur dýr verði þess vör. Forðast skal að valda dýrum óþarfa þjáningum eða hræðslu.

Það virðist lítið eða ekkert eftirlit með hvalveiðum, síðast þegar Hvalur ehf. var við veiðar árið 2018 þá drápu þeir amk tvo blendingshvali og amk. 11 kelfdar langreyðakýr. (samkvæmt vitni Arne Feuerhahn frá Hard to Port (Samtök um verndun lífríkis sjávar) þá voru þær nær tuttugu kelfdar langreyðakýr sem voru drepnar)

Þegar fréttir bárust af drápi á blendingshvölum á Íslandi vakti það mikla reiði á alþjóðavísu og ferðamenn fóru í hrönnum að afbóka hvalaskoðunarferðir. Það er bannað með lögum að selja og drepa blendingshvali því þeir eru afar sjaldgæfir.

Einnig er bannað sam­kvæmt 2. gr reglu­gerðar um hval­veiðar að veiða hvalkálfa, hvali á spena og kven­kyns hvali sem kálf­ar eða hval­ir á spena fylgja. Hins veg­ar er ekki bannað að veiða kelfd­ar hvalkýr þrátt fyrir að kálfurinn hljóti langdreginn dauðdaga í móðurlífi.

Við mótmæltum harðlega sumarið 2018 og við munum gera það aftur núna við höfnina í Reykjavík og Hvalfirði þar til veiðum verður hætt. Fulltrúi frá Hard to Port er kominn til landsins til að mynda og taka upp veiðarnar til að upplýsa okkur almenning um hvað fram fer í raun.

Hver einasti hvalur sem drepinn er í sumar er smánarblettur á okkur sem þjóð og ykkur ríkisstjórninni, við biðlum til ykkar að stöðva þessi grimmilegu dráp fyrir fullt og allt.

Samtök grænkera á Íslandi

Samtök um dýravelferð á Íslandi

Hard to Port- samtök um verndun lífríkis sjávar